Þrátt fyrir að hafa tapað mörkuðum í Rússlandi heldur útflutningur Norðmanna á sjávarafurðum áfram að aukast. Aðallega má það rekja til mikillar aukningar á sölu á lax, metútflutningi á þorski og aukinni sölu á makrílafurðum.
Útflutningsverðmæti Norðmanna í sjávar- og fiskeldisafurðum jukust um 15% í september miðað við sama mánuð fyrir ári og fór í tæpa 113 milljarða króna.
Fyrstu níu mánuði ársins námu útflutningstekjurnar tæpum 911 milljörðum króna sem er 16% aukning miðað við sama tímabil 2013. Útflutningstekjurnar stefna því að vera enn meiri á þessu ári en á metárinu 2013 þegar þær námu 1.145 milljörðum kr.