Verð á makríl hefur allt að því tvöfaldast miðað við síðasta sumar. Fleiri markaðir eru um hituna en áður og eftirspurn mikil. Lítil birgðastaða erlendra kaupenda, gott hráefni og tímasetning veiða íslenskra uppsjávarútgerða hefur gert íslenskan makrílinn eftirsóttari en áður. Landað hefur verið um 105 þúsund tonnum af makríl af þeim þeim 125 þúsund tonnum sem voru til skiptanna. Meðalverðið er um tvöfalt hærra nú en í fyrra, eða nálægt 2,90 dollarar á kíló. Samkvæmt því er makrílvertíðin að skila hátt í 38 milljörðum króna í útflutningstekjur á þessu ári.
Friðleifur Friðleifsson, sölustjóri frystra sjávarafurða hjá Iceland Seafood, segir að baki sé mjög vel heppnuð makrílvertíð. Þrátt fyrir að töluverður tími hafi farið í leit í upphafi hafi síðan góður gangur komið í veiðarnar og þar er ekki síst að þakka góðum skipum, búnaði og vinnslum ásamt kunnáttusemmi.
„Við getum verið stolt af þessari vertíð. Það hafa verið góð gæði og verð og við náð að stimpla okkur vel inn í leikinn,“ segir Friðleifur.

Hvínandi eftirspurn
„Það er óhætt að segja að makrílmarkaðir eru mjög góðir þessa dagana og við erum að sjá mjög gott verð á öllum vinnsluformum af makríl, hvort sem það eru flök, hausaður eða heill fiskur,“ segir Friðleifur Friðleifsson, sölustjóri frosinna afurða hjá Iceland Seafood. Hann segir að alla vertíðina hafi verið hvínandi eftirspurn. Eftirspurnin í upphafi vertíðar hafi strax verið mikil og menn hafi fundið að góður gangur yrði í sölumálum.
„Þegar vertíðin hófst voru nánast engar birgðir úti á markaðnum, hvorki hjá vinnsluaðilum né dreifendum. Markaðurinn var tómur í upphafi vertíðar. Það er líka ljóst að íslenskur makríll er að fá fleiri snertifleti á heimsmarkaðnum. Viðskiptalöndin eru orðin mun fleiri en var fyrir þremur til fjórum árum,“ segir Friðleifur. Þá var megnið af makríl seldur til Austur-Evrópulanda og Vestur-Afríku.

„Nú eru fleiri lönd farin að kaupa íslenskan makríl og sjá að þetta er eftirsóknarverð vara. Þótt hún sé veidd snemma á tímabilinu þá virðist það ekki skipta máli því það eru fleiri kaupendur að vörunni. Sumir eru líka nú þegar farnir að spá í vertíðina 2026. Útlitið fyrir makrílstofninn er ekkert sérstaklega gott og menn vilja gjarnan af þeim sökum birgja sig upp ef það skyldi verða samdráttur í heildarkvótanum í Norður-Atlantshafi árið 2026,“ segir Friðleifur.
Fyrstir af stað – fyrstir að selja
Vegna mikillar eftirspurnar hefur verð farið hækkandi og er núna langt komið í það að vera tvöfalt hærra en í fyrra í einstökum vinnsluflokkum og stærðum. Friðleifur segir að meiri sala sé nú til Asíulanda en til að mynda í fyrra. Einnig kaupa margar af stóru vinnslunum í Evrópu íslenskan makríl í auknum mæli. Margar eru þær með langa vinnslusamninga og vilji tryggja sér hráefni. „Við erum fyrstir af stað í þessum veiðum og í kjölfarið koma Færeyingar og svo Norðmenn. Þessir aðilar hafa séð að við erum byrjaðir og taka þá ákvörðun um að kaupa. Við njótum dálítið góðs af því að vera fyrsta landið til að koma með nýjan makríl inn á markaðinn.“
Allur íslenskur makríll er frystur, í flökum, hausaður og heill. Hlutdeild Íslendingar á makrílmarkaði er svipuð og hlutdeild landsins í veiðum úr þessum deilistofni, eða í kringum 16%.
„Við erum með góð skip og góðar vinnslur og skilum þess vegna góðri vöru frá okkur. Og við njótum góðs af því að vera fyrstir með makríl inn á galtóman markað. Eftir því sem líður á veiðitímabilið verður þessi vara enn betri. Átan minnkar og fituinnihaldið eykst. Byrjunarverðið er þess vegna mjög mikilvægt því það hækkar svo bara enn meira þegar líður á veiðitímabilið.“
Í byrjun vikunnar var makrílafli íslenskra skipa kominn í um 105 þúsund tonn. Meðalverð fyrir kíló af makríl á mörkuðum er í kringum 2,90 dollarar. Miðað við það má áætla að útflutningsverðmætin nálgist 38 milljarða króna.