Verð á útfluttum þorski frá Noregi hefur lækkað um meira en helming á undanförnum árum, að því er fram kemur í viðtali við framkvæmdastjóra norska sjávarútvegráðsins (Norges sjømatråd) í norska ríkisútvarpinu.

Árið 2006 var útflutningsverð á þorski methátt, yfir 54 krónur á kíló (1.100 ISK). Í ár selst fiskurinn til útlanda á tæpar 24 krónur (490 ISK). Auknir þorskkvótar og meiri veiði hafa leitt til þess að verðið hefur lækkað.

„Við höfum unnið hörðum höndum við að markaðssetja þorskinn. Við vissum að verðið myndi lækka og að það þyrfti að grípa til einhverra ráða,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hann segir að þeir hafi náð góðum árangri í að selja þorskinn og bendir á að í Portúgal renni norskur saltfiskur út sem aldrei fyrr þrátt fyrir efnahagserfiðleika landsins. Aukin samkeppni og verðlækkun hafi leitt til þess að fleiri leggja sér nú þorsk til munns en áður.