Yfirgefin skip og bátar eru vaxandi vandamál á Grænlandi. Oft eru í þeim eiturefni eða spilliefni þannig að ekki er hægt að farga þeim á Grænlandi. Áætlað er að kostnaður við förgun bátanna sé um 50 milljónir danskra króna, eða jafnvirði 780 milljóna íslenskra króna. Frá þessu er greint á vefnum sermitsiaq.ag og þar segir einnig að reikningur fyrir förgun bátanna verði varla sendur öðrum en skattgreiðendum.
Alls hafa rúmlega 125 eigendalausir bátar hrúgast upp í höfnum Grænlands. Bátarnir eru flestir úr sér gengnir og eigendur hafa skilið þá eftir þess vegna. Einnig hafa bátar orðið innlyksa í höfnunum þar sem eigendur þeirra hafa orðið gjaldþrota. Bátarnir eru taldir hættulegir og af þeim stafar mengunarhætta.
Vakin er athygli á þessu vandamáli í skjali frá stjórnvöldum þar sem lögð er til ný og róttæk skipan hafnarmála á Grænlandi. Þar eru kynnt áform um að 70 hafnarmannvirki verði lögð niður eða seld vegna of mikils kostnaðar við rekstur þeirra. Eru þetta um 40% af hafnarmannvirkjum á vegum landsstjórnarinnar.