Arionbanki leggst gegn hugmyndum stjórnvalda um breytingar á fiskveiðistjórnuninni rétt eins og Landsbankinn og Íslandsbanki hafa áður gert. Greiningardeild Arionbanka telur óskynsamlegt og varhugavert að ráðast í jafnmikla uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu og lagt er til í fyrirliggjandi frumvarpi um stjórn fiskveiða. Þetta kemur fram í skýrslu um íslenskan sjávarútveg sem deildin kynnti í morgun.

Í skýrslunni segir einnig að margar af þeim hugmyndum sem nú séu uppi um breytingar á kerfinu séu til þess fallnar að daga úr hagkvæmni þess. „Ef gangast á í umfangsmiklar breytingar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu er nauðsynlegt að taka mið af mögulegum áhrifum slíkra breytinga á greinina sjálfa sem og á íslenskt þjóðarbú."

Þar segir einnig: „Frá hagfræðilegu sjónarmiði er mikilvægt að fyrirtæki sjái sér hag í að fjárfesta í sjávarútvegi og að fyrirtæki geti fullnýtt getu sína til framleiðslu."  Ennfremur segir í skýrslunni: „Aukin arðsemi skapaðist í sjávarútvegi á síðustu áratugum í kjölfar hagkvæmari nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar og mun aukin óhagkvæmni í greininni því óhjákvæmilega draga úr mögulegri arðsemi."