„Ég held að við höfum loks mætt skilningi stjórnvalda um að það þurfi að dýpka með reglubundnum hætti. Hornafjarðarós hefur verið rannsakaður meira en aðrir ósar í landinu og nú er runninn upp tími framkvæmda,“ segir Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri Hornafjarðar. Ósinn hefur verið farartálmi skipa og þykir með vandasamari innsiglingum við landið. Nú stendur til að gerð verði bragarbót á.

Höfnin á Hornafirði er slagæð samfélagsins. Samfélagið byggist upp í kringum höfnina. Innsiglingin til Hornafjarðar hafði jafnt og þétt grynnkað og skip gátu ekki siglt þangað með afla nema sjór væri sléttur. Innsiglingin liggur um Hornafjarðarós og fyrir utan ósinn eru svokölluð Grynnsli sem er sandrif sem hleðst upp vegna efnisburðar frá ám á Suðausturlandi. Oft hefur það komið upp að uppsjávarskip hafa ekki komist inn og þurft að landa annars staðar.

Matthildur segir að fyrir tveimur árum hafi verið lokið við gerð nýs varnargarðs, sandfangara við Einholtskletta. Hann hefur stöðvað mesta efnisburðinn úr vestri inn í Grynnslin en nú veltur allt á því að ráðist verði í verulegar dýpkunarframkvæmdir og í framhaldi af því viðhaldsdýpkanir. Annað vanadmál sem við er að etja er að land rís þarna með auknum hraða vegna hopandi jökla.

„Veturinn sem er að kveðja hefur verið mjög óhagstæður til siglinga og komið hefur fyrir að uppsjávarskipin hafa ekki komist inn til hafnar með sinn afla. Af því hefur hlotist tekjutap jafnt fyrir bæinn og Skinney-Þinganes. Höfnin verður af tekjum og útgerðarfélagið sömuleiðis ef vinna þarf aflann annars staðar eða keyra hann á milli staða,“ segir Matthildur.

Gæti liðkað fyrir

Gerður hefur verið samningur við DHI, dönsku straumfræðirannsóknastofnunina, um að meta áhrif varnargarðsins og áhrif þess sem dýpkun hefði á innsiglinguna. Sömuleiðis hafi hið opinbera samþykkt að ráðast í dýpkun. Vignir Júlíusson, forstöðumaður Hornafjarðarhafnar, segir hlutverk DHI vera það að leggja mat á hvernig staðið verði að dýpkuninni og gera tillögur um aðrar ráðstafanir sem framkvæmdin haldi.

Vegagerðin vinnur nú að því að undirbúa útboðsgögn fyrir dýpkun næsta sumar. Vignir Júlíusson, forstöðumaður Hornafjarðahafna, segir að ákvörðun um framkvæmdina liggi fyrir. Spurningin sé eingöngu sú hvernig tilhögunina á því verði. Það er á þessu grunni sem Skinney-Þinganes hefur gengið til samninga við danska skipasmíðastöð um smíði nýs uppsjávarskips. Að sögn Ásgeirs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra veiða og vinnslu, hefur innsiglingin hamlað eðlilegri endurnýjun uppsjávarflota fyrirtækisins.

Þetta verður í fyrsta sinn sem gagnger dýpkun fer fram á innsiglingunni ef frá eru taldar viðhaldsdýpkanir. Regluleg dýpkun innan hafnar er á samgönguáætlun en þessi stóra framkvæmd sem nú er beðið eftir með eftirvæntingu hefur ekki verið sett á samgönguáætlun ennþá. Hornafjarðarbær tekur þátt í kostnaðinum á móti ríkinu ólíkt því sem við á um Landeyjahöfn sem er alfarið í eigu ríkisins.

„Skipum er siglt inn meðan ekki er hætta á ferðum. Um leið og aðstæður verða með þeim hætti að það er beinlínis hættulegt að sigla inn hætta þeir við og landa annars staðar. Það þýðir tekjutap fyrir höfnina og þetta viljum við laga. Allar bæjarstjórnir sem hér hafa verið við völd á þessari öld hafa barist fyrir þessu,“ segir Matthildur.

Gangi framkvæmdin að óskum gæti það liðkað fyrir fraktflutninga til Hornafjarðar þegar lágsjávað er. Miklir landflutningar á vörum er frá staðnum með tilheyrandi sótspori og sliti á þjóðvegum. Allri loðnu sem fer til Japans er t.a.m. ekið í gámum til Reyðarfjarðar.

„Víða í höfnum landsins eru miklar tekjur af skemmtiferðaskipum sem við höfum ekki notið góðs af því hingað komast einungis smærri skip sem rista grunnt,“ segir Matthildur.