Þróuð hefur verið veflausn í snjallsíma og spjaldtölvur með upplýsingum fyrir neytendur um fiskafurðir. Þegar kom að því að prófa lausnina í smásölugeiranum í Bretlandi voru smásalar margir hverjir hikandi að taka hana í notkun. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.

Matís hefur ásamt öðrum unnið að þróun á veflausn, einskonar „appi“, sem getur gefið neytendum upplýsingar um þann fisk sem er til sölu í verslunum eða veitingastöðum. Við þróun veflausnarinnar var leitast við að uppfylla kröfur neytenda í Bretlandi um aukið aðgengi að upplýsingum um vöruna sem þeir hyggjast kaupa.

Í veflausninni er með einföldum hætti hægt að kalla fram upplýsingar um fisk í söluborði verslunar eða á veitingastað með því að skanna QR kóða. Þær upplýsingar sem þá birtast eru með tvenns konar hætti. Annars vegar fela þær í sér rekjanleika, meðal annars hver veiddi fiskinn, hvar og hvernig. Hins vegar eru upplýsingar sem ekki þarf að uppfæra nema einu sinni á ári eða jafnvel sjaldnar, s.s. um stofnstærðarmat, uppskriftir o.þ.h. Sjá dæmi um upplýsingar í veflausninni HÉR .

Verkefnið gekk mjög vel og allir voru tilbúnir að veita aðgang að upplýsingum hvar sem er í virðiskeðjunni; í veiðum, vinnslu, útflutningi, dreifingu o.s. frv. Hins vegar var tregða hjá smásölum í Bretlandi að veita neytendum aðgang að öllum þessum gögnum. Einkum var viðkvæmt að upplýsa um hvar og hvenær fiskurinn var veiddur. Fish&chips staðir voru einna jákvæðastir og þar stendur yfir prófun á veflausninni til að fá viðbrögð frá viðskiptavinum.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.