Vefur Fiskistofu hefur ekki verið sérlega árennilegt fyrirbæri en þar er þó að finna ógrynnin öll af upplýsingum um íslenskan sjávarútveg. Framsetningin á vefnum er komin til ára sinna en undanfarið hefur verið farið í vinnu við að gera hann aðgengilegri og notendavænni.
„Við á Fiskistofu fengum verðlaun fyrir vefinn okkar 2012, en það hefur ótrúlega mikið breyst í stafrænu umhverfi síðan 2012 og við höfum kannski ekki alveg fylgt taktinum,“ segir Baldvina Karen Gísladóttir, skjalavörður og vefstjóri Fiskistofu.
Ákveðið var að gera það að forgangsverkefni hjá stofnuninni að búa til nýjan vef. Hann verður hýstur hjá Ísland.is eins og fleiri ríkisstofnanir, og starfsfólk Fiskistofu hefur unnið að gerð nýja viðmótsins ásamt starfsfólki Stafræns Íslands.
„Við erum að reyna að nálgast þetta á svolítið nýjan hátt. Við ætlum að fara í notendamiðaða nálgun og reyna að sjá til þess að allt okkar efni verði aðgengilegt fyrir alla sem þurfa að nálgast það, á máli sem fólk skilur,“ segir hún. „Þú hefur eiginlega þurft að vera með gráðu í að leita að þessu, en við erum að reyna að forðast slíkt núna.
Vonandi tekst okkur með þessu að draga úr því að fólk þurfi að hringja til að fá upplýsingar heldur geti nálgast þær sjálft.“
Samhengi hlutanna
„Hlutverk Fiskistofu er að annast framkvæmd laga um stjórnun fiskveiða, hafa eftirlit með fiskveiðum og úrvinnslu og útgáfu upplýsinga þar um,“ segir á vef stofnunarinnar. Verkefnið er yfirgripsmikið, flókið og engan veginn einfalt að draga fram alla þá afkima úr upplýsingaflóðinu sem notendur gætu þurft að nálgast hverju sinni.
„Þessi gögn eru öll inni á síðunni í dag, en við þurfum bara að stilla þeim upp á skiljanlegan máta þannig að allir sjái samhengi hlutanna,“ segir Dóróthea Jónsdóttir gagnagreinir. „En svo viljum við heldur ekki skapa misskilning. Það þarf til dæmis að vera mjög skýrt hvenær talað er um slægt eða óslægt magn. Þannig að þessi vinna við nýju heimasíðuna er líka að ýta okkur í að samræma allar þessar upplýsingar, og svo bjóðum við líka upp á að alls staðar sé hægt að taka gögnin út í excel.“
Gramsað dýpra
Við erum ennþá að reyna að finna út úr því hvar hlutirnir eiga heima út frá þessari notendamiðuðu nálgun. Við erum svolítið að raða þeim upp á nýtt.“ Í meginatriðum er nýi vefurinn orðinn að veruleika eins og sjá má á island.is/s/fiskistofa. „Grindin er komin en það sem við erum svo að stefna að núna er að vera með yfirlitsmælaborð þar sem hægt er að sjá hvernig sjávarútveginum heilsast, hversu mikið hefur verið veitt af kvóta og slíkt. Síðan verður hægt að fara dýpra og skoða alls kyns hluti, gramsa og filtera að vild. Svo koma með tíð og tíma fleiri flokkar inn, eins og flokkur um eftirlit Fiskistofu, þar sem við ætlum að fræða fólk um eftirlitshlutverk stofnunarinnar.“
Þær segja nýja vefinn enn vera vinnslu og hann eigi að halda áfram að þróast, og þá sé líka mikilvægt að fá ábendingar frá notendum. Þær má senda á veffangið [email protected]