Tyrkland er ekki þekkt fyrir fiskveiðar og fiskvinnslu, eða var það ekki til skamms tíma. Sjávarútvegur og fiskeldi þar er þó í örum vexti og Tyrkland gæti orðið stórveldi í sjávarútvegi að því er fram kemur í forsíðugrein í sjávarútvegstímaritinu „Seafood International“.
Fiskeldi í Tyrklandi er nú þegar orðið umtalsvert. Árið 1986 voru umsvif í fiskeldi ekki mikil og árleg framleiðsla var ekki meiri en 3 þúsund tonn. Nú er framleiðslan komin í um 220 þúsund tonn á ári og um 2000 fiskeldisstöðvar eru í landinu. Þrjár helstu eldistegundirnar eru bleikja og fisktegundirnar seabream og seabass.
Tyrkland er þriðji stærsti framleiðandinn á seabass í heiminum, með um 110 þúsund tonna framleiðslu. Tyrkland er einnig stærsti framleiðandi á bleikju í Evrópu en eldið skilaði um 110 þúsund tonnum af bleikju á síðasta ári.Tyrkir stunda einnig allnokkrar fiskveiðar og er ársaflinn um 490 þúsund tonn. Nærri 75% af því eru ansjósur sem fara aðallega á innanlandsmarkað. Megnið af eldisfiskinum er hins vegar flutt út enda borða Tyrkir almennt lítið af fiski.
Mikill vöxtur hefur verið í útflutningi sjávarafurða frá Tyrklandi. Útflutningurinn nam 565 milljónum dollara árið 2013, eða um 65 milljörðum ISK. Árið 2002 nam útflutningurinn 50 milljónum dollara þannig að hann hefur meira en tífaldast frá þeim tíma.