ff

Ungt fólk í Bretlandi borðar miklu minna af fiski en eldra fólk að því er fram kemur í nýlegri viðamikilli neyslu- og markaðskönnun. Til að auka söluna bæði í bráð og lengd og til að efla almennt heilbrigði bresku þjóðarinnar þarf markaðssetning á fiski að beinast meira að unga fólkinu. Frá þessu er greint á vefnum SeafoodSource.

Smásölumarkaður fyrir sjávarafurðir í Bretlandi var 2,89 milljarðar punda árið 2011 (544 milljarðar ISK) en var 2,76 milljarðar punda árið 2010 og 2,63 milljarðar árið 2009. Að hluta til stafar aukning milli ára af verðhækkunum.

Um 25% heimila í Bretlandi kaupa fisk, ferskan eða frosinn, að minnsta kosti einu sinni í viku. Á um 20% heimila er hins vegar aldrei fiskur í matinn. Miðstéttin kaupir frekar ferskan fisk en þeir sem eru flokkaðir sem lægra settir kaupa frekar frosinn fisk.

Neytendur sem voru spurðir hvað mundi hvetja þá til að kaupa meiri fisk töldu að verðið réði mestu þar um. Efnahgssástandið hefur greinilega áhrif á eftirspurn eftir fiski. Fram kemur að fish and chips er langvinsælast hjá þeim sem fara út að borða.

Athugað var hvort neytendur könnuðust við þekkt slagorð á matvörumarkaðunum, svo sem „fimm ávextir á dag“ og „lífrænt ræktað“. Í ljós kom að mörg þeirra voru mjög þekkt. Um 77% aðspurðra þekktu til dæmis „omega-3“ og 63% þekktu slagorðið „línuveiddur“. Hins vegar vissu aðeins 20% svarenda hvað stendur á bak við MSC vottunarmerkið og aðeins 50% höfðu yfirhöfuð heyrt þess getið.