Hafrannsóknastofnun hefur nýlega lokið leiðangri með það að markmiði að meta magn og útbreiðslu rækjustofna við landið. Rannsóknin fór fram dagana 19. september til 15. október og fóru þær fram á Dröfn RE 35.

Könnuð voru sex svæði: Arnarfjörður, Öxarfjörður, Húnaflói, Ísafjarðardjúp, Skagafjörður og Skjálfandi. Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var undir meðallagi og var helsta útbreiðslusvæði rækju innst í firðinum. Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mældist undir meðallagi. Líkt og undanfarin ár var mest magn rækju innst í Djúpinu. Stofnvísitala rækju í Skjálfanda mældist rétt undir meðallagi og var hún tiltölulega jafndreifð yfir svæðið. Rækjustofnar á öðrum svæðum eru enn í lægð. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að leyfðar verði veiðar á 100 tonnum af rækju í Skjálfanda, 250 tonnum í Arnarfirði og 700 tonnum í Ísafjarðardjúpi fiskveiðiárið 2015/2016

Meira fékkst af ýsu en á síðustu árum, en magn hennar minnkaði nánast stöðugt frá árinu 2005-2014. Mikil aukning var í magni árs gamallar ýsu á öllum svæðum nema í Arnarfirði. Minna var af þorski í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi en síðustu ár, en hins vegar jókst magn þorsks á svæðunum fyrir norðan land. Einnig var mikið af þorskseiðum. Magn ungfisks var yfir viðmiðunarmörkum og því hefur Hafrannsóknastofnun lagt til að rækjuveiðar hefjist ekki fyrr en að magn þeirra hefur minnkað á veiðisvæðum rækjunnar.

Sjá frétt og skýringarmyndir á vef Hafró.