Hafrannsóknastofnun hyggst senda rannsóknaskipið Árna Friðriksson út í nýjan loðnuleiðangur öðru hvoru megin við næstu helgi.
„Við vitum ekki nákvæmlega hvenær verður farið, hvort það verður fyrir eða eftir helgi. Það er háð veðri og slíku,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Að sögn Guðmundur er Árna Friðrikssyni ætlaðir allt að fimmtán dagar í þennan leiðangur. Eins og staðan sé núna fari Árni einn í leitina. Mögulega bætist þó við skip frá útgerðinni.
Nauðsynlegt að gefa sér tíma,
„Það myndi stækka yfirferðarsvæðið en við sjáum fyrir okkur að það þurfi að vera svolítinn tíma því það getur ýmislegt gerst, loðnan gæti tafist og verið misjafnlega lengi að koma sér inn á svæðið. Þess vegna er nauðsynlegt að gefa sér tíma,“ segir Guðmundur.
Að sögn Guðmundar verður sjónum fyrst og fremst beint að norðvestursvæðinu í þessari yfirferð ef það skyldi dúkka upp einhver vesturganga til að geta náð utan um hana og mælt hana. „Við eigum síður von á að komi eitthvað á þessum tíma norðaustan til miðað við dreifinguna á loðnunni í janúar. En slíkt er náttúrlega ekki hægt að útiloka,“ segir hann.
Stundum mælt út febrúar
Spurður um tímaramma á loðnuleitinni segir Guðmundur að mælingar hafi stundum verði gerðar út febrúar en lítið fram í mars. „En það hefur samt gerst ef það hefur verið tilefni til.“
Varðandi veiðina sjálfa séu menn stundum að hefja hana í byrjun mars þegar hrognataka sé að hefjast.
Það er því ekki öll von úti með loðnuvertíð þótt janúarmælingar hafi ekki gefið tilefni til útgáfu veiðiheimilda.
Alltaf möguleiki með vestangöngur
„Það er alltaf möguleiki með þessar vestangöngur. Við vitum ekki almennilega hvernig þær haga sér,“ segir Guðmundur. Þótt ágætlega hafi náðst yfir Vestfjarðamegin og norðvesturhornið í fyrri leiðangri sé ekki hægt að útiloka að enn norðar hafi verið einhver loðna sem ekki hafi verið gengin inn á svæðið.
„Það er loðna sem væri frá grænlenska landgrunninu, við kantinn þar. En við vitum ekki neitt um hvernig þetta verður, það gæti þess vegna verið allt komið,“ undirstrikar sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.