Rekstur Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum skilaði um 1,2 milljarða króna hagnaði árið 2019. Þetta kom fram á aðalfundi  VSV í Vestmannaeyjum 26. maí síðastliðinn.

Á fundinum var til þess tekið að góð niðurstaða ársins náðist þrátt fyrir loðnubrest og að humarvertíð var ekki svipur hjá sjón. Mikilvæg forsenda góðrar rekstrarniðurstöðu voru sagðar vel heppnaðar fjárfestingar undanfarinna ára.

Vinnslustöðin hefur skilað hagnaði frá 2000 að einu ári undanskildu. Hjá félaginu voru 170 störf árið 2000 en 315 á árinu 2019 og „hefðu líklega verið um 350 ef loðna hefði veiðst og humar sömuleiðis,“ segir í frétt félagsins.

Vel heppnuð uppbygging

Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður VSV, sagði að uppbyggingartími síðustu ára hefði haft mikil og góð áhrif á fyrirtækið, starfsmenn þess og samfélagið í Eyjum.

„Á síðastliðnum fimm árum hefur Vinnslustöðin fjárfest fyrir 86 milljónir evra [11,3 milljarða króna á gengi hvers árs], þar af fyrir 69 milljónir evra [9,1 milljarð króna á gengi hvers árs] í varanlegum rekstrarfjármunum, svo sem Breka VE, nýju uppsjávarfrystihúsi, nýrri frystigeymslu og endurnýjun í skipaflotanum.“

Stjórnarformaðurinn rakti áhrif veirufaraldursins heima og heiman; fjallaði árangursríkar sóttvarnaraðgerðir til sjós og lands í Vinnslustöðinni. Taldi hann skynsamlegast að segja sem fæst um rekstarhorfur 2020 á meðan fullkomin óvissa ríkir um áhrif veirufaraldursins heima og heiman.

„Á næstu árum munum við stefna að meiri endurnýjun skipaflotans og eins stefnum við að því byggja upp nýtt botnfiskvinnsluhús. Framundan er hins vegar að ljúka við að klæða gömlu frystigeymsluna, taka í notkun nýja og glæsilega starfsmannaaðstöðu og taka til og gera fínt í kringum okkur. Að því loknu förum við í að undirbúa næstu fjárfestingar.“