Alþingi samþykkti fyrir stuttu ný heildarlög um skip, en í meðförum þingsins var samþykkt að ráðherra gæti veitt safnskipum undanþágur frá tilteknum kröfum laganna og þeim reglugerðum sem byggðar verða á þeim. Með safnskipum er átt við skip sem eru 50 ára og eldri sem eru rekin í menningarlegum tilgangi. Í nefndaráliti er tekið fram að þarna sé „átt við að skipin sjálf hafi menningarlegt gildi en ekki t.d. að menningarviðburðir séu haldnir um borð í skipinu.“

Einnig er gert ráð fyrir því að ráðherra geti ákveðið að nýjar reglugerðir gildi ekki um önnur gömul skip, en þó þurfi að taka tillit til öryggis og aðbúnaðar um borð, og einnig til varna gegn mengun.

Annars er nýju lögunum ætlað að einfalda lagaumhverfi skipa og sameina efni fjögurra eldri laga, um einkenning fiskiskipa frá 1925, um skráningu skipa frá 1985, um skipamælingar frá 2002 og um eftirlit með skipum frá 2003. Gildistaka laganna er 1. júlí.