Veruleg fækkun varð á beiðnum um undanþágu frá skipstjórnar- og vélstjórnarréttindum til sjós á síðasta ári miðað við árið á undan. Þetta stafar að líkindum af því að fjöldi sjómanna, sem leitaði sér vinnu í landi í uppsveiflu efnahagslífsins, skilaði sér aftur til sjós þegar allt hrundi.
Á árinu 2008 voru umsóknir um undanþágur 708 talsins en þeim fækkaði í 625 á árinu 2009.
Á nýliðnu ári voru 557 undanþágur samþykktar, þar af 465 vegna vélstjórnarstarfa og 92 vegna skipstjórnarstarfa. Alls 68 umsóknum var hafnað.
Svokölluð undanþágunefnd, sem samgönguráðherra skipar, hefur það verkefni að vega og meta hvort veita eigi manni, sem ekki hefur tilskilin réttindi til skipstjórnar- eða vélstjórnarstarfa, undanþágu til að gegna stöðunni á tilteknu skip í tiltekinn tíma.