Umhverfissjóður sjókvíaeldis auglýsir nú eftir umsóknum um styrki til rannsókna og verkefna sem styðja við markmið sjóðsins um lágmörkun umhverfisáhrifa af völdum sjókvíaeldis
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef matvælaráðuneytisins. Upphæðin sem er til úthlutunar á árinu 2025 er 172 milljónir króna. Það eru stofnanir, fiskeldisfyrirtæki, einstaklingar og lögaðilar sem geta sótt um styrki.
„Hlutverk sjóðsins er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats og vöktunar. Sjóðurinn getur jafnframt greitt kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður eftir því sem fjármagn leyfir. Verkefnum er forgangsraðað í samræmi við framangreint hlutverk og áherslur stjórnar hverju sinni,“ segir í tilkynningunni.
Horft til verkefna sem stuðla að þekkingu á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis
Einnig segir að stjórn sjóðsins leggi faglegt mat á allar umsóknir, forgangsraði verkefnum og ákveði styrkfjárhæð. „Við úthlutun ársins 2025 mun stjórn hafa lögbundið hlutverk sjóðsins til grundvallar úthlutunar, en auk þess líta sérstaklega til verkefna sem stuðla að aukinni þekkingu á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á vistkerfi fjarða og verkefna sem ganga út á eflingu mótvægisaðgerða vegna umhverfisáhrifa sjókvíaeldis.“
Þá er í tilkynningunni vakin athygli á því að loka- og framvinduskýrslur verkefna sem sjóðurinn styrkir skuli almennt vera aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. „Aðrar upplýsingar í umsóknum er varða fjárhag eða viðskiptahagsmuni umsækjenda og annarra einstaklinga og lögaðila er tengjast verkefnum á vegum sjóðsins skulu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál að því marki sem lög takmarka ekki.“
Að endingu kemur fram að umsóknarfrestur er til klukkan 16:00, föstudaginn 4. apríl 2025 og að unsóknum eigi að skila rafrænt á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.