Í skýrslu um afrakstur átaksverkefnis um loðnurannsóknir 2018-2022, Loðna á tímum umhverfisbreytinga, sem nú hefur verið birt á vegum Hafrannsóknastofnunar, segir m.a. að setja megi fram tilgátu um að umhverfisbreytingar norðan og norðvestan við Ísland hafi verið meginorsakvaldur breyttrar útbreiðslu loðnustofnsins bæði á haustin og að vetrarlagi. Til að kanna breytingar á grundvallar umhverfisþáttum á þessu svæði voru hitastig sjávar og selta skoðuð. Gögn sýndu meðal hækkun sjávarhita um 1.12 °C og seltu um 0.32 PSU eftir 2002 á svæðinu. Fyrri rannsóknir hafa einnig sýnt þessa hækkun sjávarhita byggt á gögnum sem var safnað á föstum mælistöðvum.
Mikilvægi í fæðu þorsks
Rannsóknirnar beindust meðal annars að langtímabreytingum á dreifingu og lífssögu loðnu, hrygningu, fæðu loðnu, afráni á loðnu og áhrifum atferlis og lífeðlisfræðilegra þátta loðnu á mat lífmassa.
Skýrslan samanstendur af greinum um niðurstöður fjölbreyttra loðnurannsókna. Niðurstöður rannsóknanna voru kynntar á loðnuráðstefnu Hafrannsóknastofnunar í nóvember. Í ritnefnd skýrslunnar voru Warsha Singh, Anna Heiða Ólafsdóttir, Sigurður Þ. Jónsson og Guðmundur J. Óskarsson.
Skýrslan er sett fram í mörgum styttri greinum þar sem m.a. er fjallað um gönguleið og tímasetningu loðnugangna í aldarfjórðung, umhverfisáhrif á dreifingu loðnulirfa, loðnurannsóknir í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík, mikilvægi loðnu í fæðu þorsks á íslenska landgrunninu og margt annað. Finna má skýrsluna Loðna á tímum umhverfisbreytinga hér.