Þann 10. ágúst lauk víðtækum hvalatalningum á vegum Hafrannsóknastofnunar, sem fram fóru í samstarfi við nágrannaþjóðir við Norður Atlantshaf og var skipulagning þeirra á vettvangi Norður Atlantshafs sjávarspendýraráðsins (www.nammco.no) (NAMMCO), að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar .
Talningum Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga er nú lokið, en grænlenska hluta talninganna lýkur ekki fyrr en í september. Talningarsvæðið nær í heild yfir svæðið frá Vestur Grænlandi í vestri, um Ísland og til Noregs í austri og nær því yfir meginhluta sumarútbreiðslusvæðis helstu stórhvalastofna í Mið- og Norðaustur Atlantshafi. Meginmarkmið talninganna var að leggja grunn að stofnstærðarmati fyrir helstu tegundir stórhvala, einkum nytjastofna hvala svo sem langreyði og hrefnu, en einnig veita nytsamlegar fjöldaupplýsingar og gögn um útbreiðslu annarra stórra hvala og smárra.
Auk þess að vera megin grundvöllur ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar um ástand veiðiþol og verndun hvalastofna við landið, eru talningarnar mikilvægur hluti vöktunar á vistkerfi hafsins. Alls tóku fjögur skip og þrjár flugvélar þátt í talningum að þessu sinni, þar af tvö skip og ein flugvél að Íslands hálfu. Heildarfjöldi talningamanna í íslenska hlutanum var 25 og leiðangursstjórar voru Gísli A. Víkingsson, Þorvaldur Gunnlaugsson, Davíð Gíslason og Daniel Pike.
Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson voru notuð til talninganna. Í leiðöngrunum á Árna Friðrikssyni fóru einnig fram rannsóknir á karfa (10.-30. júní) og makríl (6. júní-10. ágúst). Talningarnar á Bjarna Sæmundssyni fóru fram í tveim hlutum, 9. júní – 2. júlí og 6.-26. júlí. Veður var fremur óhagstætt, sérstaklega fyrir sunnan land í fyrri hluta leiðangurs. Eftirtaldar hvalategundir sáust í leiðangrinum: steypireyður, langreyður, sandreyður, hrefna, hnúfubakur, búrhvalur, andarnefja, háhyrningur, marsvín (grindhvalur), leiftur, hnýðingur, rákahöfrungur, svínhvalir og hnísa. Hönnun talninganna miðaðist við að fá sem best mat á fjölda langreyða í Mið Norður Atlantshafi. Talsvert sást af langreyði á hefðbundnum miðum í Grænlandshafi vestur af landinu.
Fyrir dyrum stendur umfangsmikil úrvinnsla gagna úr leiðangri þátttökuþjóða. Munu endanlegar niðurstöður talninganna liggja fyrir í vetur, en þær verða lagðar fyrir vísindanefndir Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður Atlantshafs sjávarspendýraráðsins (NAMMCO).