Varðskipið Þór og flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, tóku þátt í umfangsmikilli mengunarvarnaræfingu í Skutulsfirði í vikunni. Æfingin var samstarfsverkefni Landhelgisgæslu Íslands, Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu og Ísafjarðarhafnar.
Þetta kemur fram í frétt frá Gæslunni.
Um árlega bráðamengunaræfingu var að ræða þar sem líkt var eftir olíuslysi í kjölfar þess að skip tók niðri á skeri í firðinum. Að þessu sinni var ekki notast við hina öflugu mengunarvarnargirðingu Þórs sem er 300 metra löng, heldur var mengunarvarnargirðingu Ísafjarðarhafnar komið fyrir um borð í varðskipinu og hún prófuð. Slíkar girðingar eru til staðar í nokkrum höfnum landsins.
Segir ennfremur í fréttinni að dráttarbátur Ísafjarðarhafnar, Sturla, dró girðinguna út. Dæla varðskipsins Þórs, hinn svokallaði Skimmer, sá svo um að ná „mengaðri olíu úr sjó.“ Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug yfir svæðið og lagði mat á „umfang mengunarinnar“.
Æfingin gekk vel og voru allir hlutaðeigandi sammála um að nauðsynlegt sé að æfa viðbrögð við olíumengun með reglubundnum hætti. Að sama skapi þykir mikilvægt að prófa þann búnað sem er til staðar í höfnum landsins svo hægt sé að bregðast við með fumlausum hætti, verði olíuslys hér við land.