Hagmunaaðilar í sjávarútvegi eru margir hverjir óánægðir með kvótaskiptingu makríls í framkomnu frumvarpi sjávarútvegsráðherra en af ólíkum ástæðum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri G. Run á Grundarfirði segir ísfiskskipin koma mjög illa út úr kvótaskiptingunni. Þau hafi verið heft í veiðum og fengið hlutfallslega miklu minna en frystitogararnir. „Stjórnvöld tala fjálglega um að efla atvinnu og vinnslu í landi en sýna það aldrei í verki,“ segir hann.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS mótmælir því harðlega að færabátar skuli niðurnjörvaður til allrar framtíðar við aðeins 5% af heildarveiðiheimildunum. Þessi bátaflokkur hefði þurft lengri tíma til þess að laga sig að þessum veiðum og afla sér aukinnar veiðireynslu.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segist ekki sjá annað en að núverandi sjávarútvegsráðherra sé með þessu lagafrumvarpi að staðfesta þau ákvæði í reglugerðum Jóns Bjarnasonar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem umboðsmaður Alþingis hefði úrskurðað að brytu í bága við lög.

Sjá nánar í Fiskifréttum.