Tækniþekkingarfyrirtækið Kælismiðjan Frost býr við góða verkefnastöðu og var áberandi á sjávarútvegssýningunni IceFish í síðasta mánuði. Fyrirtækið hannaði, framleiddi og setti upp kælikerfið í nýrri Sigurbjörgu ÁR og kynnti á IceFish sjávarútvegssýningunni hönnun og uppbyggingu á frystikerfum í þrjár frystigeymslur á Hornafirði, á Þórshöfn á Langanesi og á Sauðárkróki. Fyrirtækið kynnir auk þess nýjan samstarfssamning við einn stærsta róbótaframleiðanda heims, Yaskawa, ásamt plötufrysta- og lausfrystaframleiðandanum DSI-Dantech í Danmörku.

Frost hefur nýverið gert samstarfssamning við Yaskawa í Japan sem er einn af þremur stærstu róbótaframleiðendum í heiminum. Þeir framleiða róbóta, hraðastýringar, iðntölvustýringar og annan rafbúnað. Frost var með róbót frá Yaskawa til sýnis á sjávarútvegssýningunni sem vakti talsverða athygli.

„Róbótar frá þessum þekkta framleiðanda verða nýjung í okkar starfsemi og með þeim stækkum við vöruvalið frá okkur og ætlum að bjóða viðskiptavinum okkar upp á lausnir með róbótum,“ segir Guðmundur Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts.

Guðmundur Hannesson.
Guðmundur Hannesson.

Yaskawa framleiðir róbóta af öllum stærðum og gerðum, allt frá handheldum róbótum upp í róbóta sem eru nokkur tonn að þyngd. Frost mun beina sjónum að sínum kjarnamarkaði, fyrirtækjum sem eru í sjávarútvegi, lyfjaiðnaði, landbúnaði, mjólkuriðnaði og heildsölustarfsemi. Um þetta og margt fleira má lesa í grein um fyrirtækið sem birtist í tímariti Fiskifrétta.