Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, skrifar grein í sjómannadagsblað Fiskifrétta. Þar segir hann meðal annars að langreyði hafi fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upphafi hvalatalninga árið 1987. Hann kveðst fylgjandi sjálfbærum hvalveiðum á langreyði. Grein Árna fer hér á eftir.

„Umræða hefur verið undanfarið um að banna eigi hvalveiðar. Umræðan er um margt einhliða, í stórum dráttum snýst hún um að það eigi að banna hvalveiðar strax eða í það minnsta að draga úr veiðum í sumar.

Hvalurinn sem veiddur er af Hval hf. heitir langreyður. Veitt er samkvæmt vísindalegri ráðgjöf. Veiðarnar eru sjálfbærar sem þýðir að veiddur er tiltekinn fjöldi úr stofninum sem vísindamenn telja óhætt að veiða. Veidd voru 148 dýr í fyrrasumar úr stofni sem talinn er 70.000 dýr. Langreyði hefur fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upphafi hvalatalninga árið 1987 og var fjöldinn í síðustu talningu (2015) sá mesti síðan talningar hófust.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að árlegar veiðar á langreyði á tímabilinu 2018-2025 verði ekki meiri en 161 dýr á veiðisvæðinu Austur-Grænland/Vestur-Ísland (EG/WI) og að hámarki 48 langreyðar á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar (EI/F).

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna.
Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna.

Hvalveiðar og hvalskoðun fara vel saman

Veiðisvæði langreyða er landgrunnskanturinn vestur og suðvestur af landinu. Margir blanda saman hvalveiðum og hvalaskoðun. Í hvalaskoðun á Íslandi sést langreyður sárasjaldan, þær eru sjaldan nærri landi. Sá hvalur sem langalgengast er að sjáist í hvalaskoðun er hnúfubakur. Hann var alfriðaður 1955 á Íslandi og hefur fjölgað gífurlega á undanförnum áratugum. Hnúfubakur er á Íslandmiðum allan ársins hring og enginn áform um veiðar á honum. Þannig að hvalveiðar og hvalaskoðun fara ágætlega saman og engir hagsmunaárekstrar þar, nema ímyndaðir vegna þess að sumir telja að hvalveiðar hafi áhrif á fjölda ferðamanna sem heimsækja Ísland. Tölfræðin segir okkur hins vegar að hvalveiðar hafa lítil sem engin áhrif á fjölda ferðamanna.

Vegið að þeim sem stunda hvalveiðar

Ég er fylgjandi sjálfbærum hvalveiðum á langreyði. Talið er að stofnstærðin í Norður-Atlantshafi sé yfir 70.000 dýr samkvæmt nýjustu talningum frá 2015-2016. Við veiddum í fyrra 148 dýr. Mér finnst sjálfsagt að nýta hval eins og aðrar lífverur í höfunum en að sjálfsögðu þannig að alls jafnvægis sé gætt. Mér finnst vegið að sjómönnum sem stunda hvalveiðar, því fólki sem starfar við vinnslu afurðanna og þeim sem standa fyrir þessum veiðum, Hvali hf. Þeir sem vilja banna hvalveiðar alfarið gera lítið úr því að við hvalveiðar og vinnslu afurða starfar fólk. Fólk sem hefur tekjur af vinnu sinni á hvalvertíðinni og margir hafa vinnu árið um kring við viðhald og endurbætur. Fólkið og Hvalur hf. greiða skatta og skyldur til ríkis og sveitarfélaga. Starfsemin í heild skilar gjaldeyristekjum, ekki veitir af. Ég hefði kosið að í stað þess að hvalveiðar yrðu bannaðar yrði reynt að gera veiðar mannúðlegri.

Allir vilja deyða dýr í fyrsta skoti

Hvalveiðar fara þannig fram að hvalurinn er skotinn með skutli sem er þannig útbúinn að þegar hann er kominn inn í dýrið springur hleðsla sem í flestum tilfellum deyðir dýrið samstundis, skutullinn festist í dýrinu. Í skutulinn er fest lína sem liggur um borð í veiðiskipið, dýrið er dregið að skipinu og fest við skipið og þannig ferjað í land til vinnslu.

Hvalveiðar hafa aldrei verið stundaðar með mannúðlegri hætti en nú, þ.e.a.s. að hvalur deyr í flestum tilfellum við fyrsta skot. En eins og við allar veiðar þá gerast mistök, þannig að skjóta þarf öðru eða jafnvel fleiri skotum til að deyða dýrið. Ég fullyrði að allir veiðimenn gera sér far um að deyða dýr í fyrsta skoti, áhafnir hvalveiðiskipa líkt og annarra veiðiskipa vilja einfaldlega veiða bráðina á sem skemmstum tíma og halda heimleiðis.

Það kom í ljós við eftirlit Matvælastofnunar (Mast) um borð í hvalveiðiskipum Hvals hf. í fyrrasumar að 67% hvalanna misstu meðvitund eða drápust samstundis. 14 hvalir (24%) voru skotnir oftar en einu sinni. Tvo hvali þurfti að skjóta fjórum sinnum, tæpa klukkustund tók að aflífa annan hvalinn og hinn tvær klukkustundir. Auk þess kemur fram að einum hval með skutul í bakinu hafi verið veitt eftirför í 5 klst. án árangurs. Þess er ekki getið í skýrslunni að það hafi orðið vélarbilun um borð í skipinu sem var ástæðan fyrir því að ekki var hægt að ná dýrinu.

Bylting í gerð veiðarfæra

Á undanförnum áratugum hefur orðið bylting í þróun veiðarfæra sem notuð eru við fiskveiðar. Veiðarfærin eru mun vistvænni (olíusparnaður), þau eru sterkari, léttari, týnast síður vegna tækjabúnaðar sem sýnir nákvæma staðsetningu þeirra, þannig að ef þau tapast er hægt að ná þeim upp o.s.frv.

Það hefur einnig átt sér stað mikil þróun á búnaði til hvalveiða. Bylting var þegar farið var að nota sprengiskutla sem deyða hvalinn oftast samstundis eins og áður segir. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vanda okkur við þessar veiðar sem aðrar og leita allra leiða til þess að bæta úr agnúum eins og frekast er kostur. Á komandi sumri stendur til að prófa að nota rafmagn til að deyða hvalinn og einnig eru hugmyndir um notkun gervigreindar til að hjálpa mönnum að hitta hvalinn örugglega.

Mér finnst lítið fara fyrir þeirri umræðu að Hvalur hf. veitir um 150 manns vinnu, þar að auki er fjöldi fólks sem vinnur afleidd störf fyrir fyrirtækið í viðhaldi og þess háttar. Á skipunum eru áhafnir sem vinna að hluta árið um kring að viðhaldi skipanna og búnaði þeirra. Af starfseminni skapast þannig bæði skattekjur og útflutningstekjur sem skipta máli.

Sjálfbærni og verndunarsjónarmið

Við Íslendingar þurfum að standa saman, því við búum í harðbýlu landi. Við stýrum veiðum á nytjastofnum á Íslandsmiðum og á landi (fuglum, hreindýrum o.fl. ), í samstarfi við okkar færustu vísindamenn og alþjóðastofnanir þar sem sjálfbærni og verndunarsjónarmið eru höfð að leiðarljósi. Við þurfum að gæta okkar að eyðileggja ekki sjálf fyrir okkur lífsviðurværi þjóðarinnar með ofverndunar sjónarmiðum. Það er til fólk sem vill banna fiskveiðar, kjötframleiðslu og fleira. Landsmenn hafa í gegnum tíðina lifað að mestu á því sem landið og sjórinn gefa. Landið okkar og hafið er einstakt fyrir ferskleika og hreinlæti, við eigum að nýta það af skynsemi með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi en á sama tíma að huga að dýravernd allra dýra sem notuð eru til manneldis og við skulum stefna að því að vera frumkvöðlar í innleiðingu tækja og tóla sem valda dýrunum, helst engum eða, sem allra minnstum sársauka við deyðingu.

Hvalirnir í sjónum borða svifdýr, ljósátu, uppsjávarfisk (loðnu, síld o.s.frv.), og nytjastofna, þorsk, ýsu o.fl. og eru þannig í beinni samkeppni við manninn um framleiðslugetu hafsins."