Ísfisktogarinn Vestmannaey VE hélt til veiða frá Akureyri á þriðjudag í síðustu viku að eftir að hafa verið þar í slippnum í fimm vikur.
Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar þar sem rætt er við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra. Segir Birgir að siglt hafi verið suður fyrir land frá Akureyri og veiðar hafnar út af Garðskaganum. Þar hafi fengist ýsa.
Lönduðu fullfermi
„Þaðan var haldið út á Fjöllin í karfaleit. Þar gengu veiðarnar vel og við lönduðum fullfermi í Grindavík á laugardaginn. Að lokinni löndun í Grindavík var aftur reynt við ýsu út af Garðskaganum en þá gripum við í tómt. Þar var afar lítið að hafa,“ segir Birgir á svn.is. Næsta hafi verið haldið á Víkina þar sem verið hafi rólegt en síðan hafi góð blanda fengist á Höfðannum.
„Síðan var reynt á Mýragrunni þar sem einnig fékkst blanda og loks var farið á Víkina aftur og skipið fyllt. Við lönduðum síðan fullfermi í Eyjum í fyrradag og aflinn var mest ýsa og þorskur og dálítill ufsi með. Að lokinni löndun var um fátt annað hugsað en komandi þjóðhátíð en ekki verður haldið á ný til veiða fyrr en í hádeginu á mánudag,” sagði Birgir Þór,“ segir á vef Síldarvinnslunnar.