Um 700 vísíndamenn á sviði haf- og fiskifræða sitja ársfund Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem hófst í Hörpu í dag og stendur yfir alla þessa viku. Hafrannsóknastofnun er gestgjafi ársfundarins að þessu sinni.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir gríðarlega mikilvægt fyrir Hafrannsóknastofnun að vera gestgjafi ráðstefnunnar enda leiti stofnunin iðulega til ICES þegar kemur að ráðgjöf varðandi fiskveiðar.

Paul Connolly, forseti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, sagði á blaðamannafundi í dag að Ísland og íslenskar hafrannsóknir væru mikilvægur hlekkur í alþjóðlegum rannsóknum á hafinu og ráðgjöf sem tengist nýtingu fiskistofna.

Alþjóðahafrannsóknaráðið, sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn, stuðlar að og samræmir haf- og fiskirannsóknir á norðanverðu Atlantshaf og veitir ráðgjöf um veiðar. Starfsemin byggist á þátttöku um 4000 vísindamanna frá um 300 stofnunum í 20 aðildarlöndum ráðsins. Á vegum ráðsins starfa um 120 sérhæfðar vinnunefndir, sem meðal annars fjalla árlega um ástand fiskistofna við Ísland.

Á ráðstefnunni ræða vísindamenn sem tengjast haf- og fiskifræðum það sem er efst á baugi á sínu fræðasviði. Alls koma íslenskir vísindamenn að á fjórða tug rannsóknaverkefna, flestir frá Hafrannsóknastofnun, en alls verða 450 kynningarerindi og veggspjöld á ársfundinum.