Álögð gjöld vegna ólögmæts sjávarafla námu samtals tæpum 60 milljónum króna í fyrrra og er álagning vegna strandveiða meðtalin. Þetta kemur fram í ársskýrslu Fiskistofu fyrir árið 2014.

Fiskistofa leggur á sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla á og annast innheimtu gjaldsins fyrir Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

Í heild komu 153 slík mál til kasta Fiskistofu á árinu 2014 og er það um 50 málum fleira en árið áður. Oftast er hér um að ræða afla sem ekki eru heimildir fyrir. Álagning nam um 31,4 milljónum króna á árinu 2014 en var rétt rúmar 5 milljónir árið 2013 en um 74 milljónir árið 2013.

Fjöldi strandveiðibáta með of mikinn afla

Fiskistofa hefur einnig með höndum álagningu gjalda vegna ólögmæts afla strandveiðibáta. Þegar um strandveiðar ræðir er lagt á gjald sem nemur verðmæti þess afla sem er umfram 650 þorskígildiskíló í veiðiferð. Gjaldinu er skipt hlutfallslega eftir tegundum. Álagning fer fram mánaðarlega. Tilkynningar um álagningu vegna strandveiða á árinu 2014 voru alls 1.092 og fjölgaði um 64 frá 2013 eða um rúmlega 6%. Nam upphæð gjaldsins sem lagt var á 28,5 milljónum króna.