Hjá Síldarvinnslunni hófust veiðar og vinnsla á makríl og norsk-íslenskri síld í júlímánuði sl. og lauk í byrjun októbermánaðar. Framan af var öll áhersla lögð á makrílveiðina og síld barst þá að landi sem meðafli. Undir lokin hófust hreinar síldveiðar, að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Hér á eftir verður gefið yfirlit um þessar veiðar og hvernig aflinn var unninn.

Sá afli sem kom til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á veiðitímabilinu nam tæplega þrjátíu þúsund tonnum. Tekið var á móti 19.214 tonnum af makríl og 10.345 tonnum af norsk-íslenskri síld. Megnið af aflanum kom frá þremur skipum, Berki NK, Beiti NK og Bjarna Ólafssyni AK. Að auki landaði Margrét EA makríl- og síldarafla og Birtingur NK landaði síld. Aflinn skiptist á skipin sem hér segir:

Makríll                 Norsk-íslensk síld

Börkur NK                    5.918                           3.445

Beitir NK                       7.194                           2.754

Bjarni Ólafsson AK       5.117                           1.019

Margrét EA                     985                               216

Birtingur NK                     0                               2.911

Fyrir utan þann makríl og síldarafla sem landað var til vinnslu í fiskiðjuverinu lönduðu þrjú vinnsluskip frystum makríl og norsk-íslenskri síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Frystar afurðir þeirra námu samtals 16.328 tonnum og skiptust þannig á milli skipanna:

Kristina EA                         7.580

Vilhelm Þorsteinsson EA   3.302

Hákon EA                          5.446

Þá lönduðu grænlensku vinnsluskipin Polar Amaroq og Polar Princess samtals rúmlega 1.900 tonnum í Neskaupstað en afli þeirra fór ekki í frystigeymslurnar heldur beint um borð í flutningaskip. Afli Polar Amaroq var 664 tonn en Polar Princess 1.243 tonn.

Vinnsluskipin lönduðu samtals 7.177 tonnum af afskurði og fráflokkuðum fiski í fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað.

Á framansögðu má sjá að á vertíðinni bárust samtals  54.971 tonn af makríl og norsk- íslenskri síld til Neskaupstaðar.