Um 47.100 tonn af makríl hafa veiðst í grænlensku lögsögunni samkvæmt upplýsingum sem Fiskifréttir hafa fengið frá Grænlandi.
Þá hefur enn eitt íslenska skipið verið leigt til Grænlands til veiða á makríl. Um er að ræða Ísfélagsskipið Álsey VE. Arctic Royal Greenland Pelagic tekur skipið á leigu. Áður hafði Ísfélagið leigt Sigurð VE og Heimaey VE.
Í dag var endurúthlutað um 2 þúsund tonnum af 3 þúsund tonna kvóta Northern Seafood sem gerir frystitogarann Júní út (fyrrum Venus HF). Kvótanum var endurúthlutað þar sem talið er að Júní nái ekki að veiða allan sinn kvóta. Þessi 2 þúsund tonn komu í hlut Prime Fisheries sem Brim á hlut í. Viðbótarkvótinn deilist þannig: 1.200 tonn til Brimnes RE og Guðmundar í Nesi RE og 800 tonn til Ilivileq (áður Skálaberg RE) og Ilivileq II.