Rúm ein milljón tonna af makríl mældust í íslensku lögsögunni í sumar sem er um 42% þess magns sem mældist í sameiginlegum leiðangri þriggja þjóða, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnuninni.

Nýverið var lokið gerð skýrslu um sameiginlegan leiðangur Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna sem farinn var sl. sumar á hafsvæðinu í kringum Ísland, Færeyjar og um Austurdjúp, allt að ströndum Noregs til að meta dreifingu og magn makríls og annarra uppsjávarfiska. Auk fiskirannsóknanna voru umhverfisskilyrði og vistfræði hafsvæðisins kannað.

Magn makríls á svæðinu var metið með upplýsingum um afla í togum sem tekin voru með reglulegu millibili. Í heild mældust um 2,7 milljónir tonna af makríl á rannsóknarsvæðinu, og þar af 1,1 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða um 42%. Í leiðangri sömu þjóða sumarið 2010 var heildarmagnið metið 4,4 milljónir tonna en svipað magn innan íslenska hafsvæðisins og nú. Það sem er helst talið skýra muninn á heildarmagninu milli ára er að leiðangurinn nú náði yfir minna hafsvæði (1060 þús. ferkílómetra) en sumarið 2010 (1750 þús. ferkílómetra). Þannig var svæðið norðan við 69°N ekki með í útreikningunum. Eins náði leiðangurinn hvorki að mörkum útbreiðslusvæðis makríls í vestur né suðaustur.

Þetta er þriðji sameiginlegi leiðangur þessara þjóða. Þó svo að niðurstöður þessar séu ekki lagðar til grundvallar mati á heildarstofnstærð makríls, staðfesta þær, líkt og fyrri leiðangrar, að elsti makríllinn ferðast lengst í sínum ætisgöngum í Norðaustur Atlantshafi á sumrin. Var hann einkum að finna vestast og nyrst á rannsóknasvæðinu. Í leiðangrinum var jafnframt könnuð dreifing átu (helsta fæða markílsins), en mestur þéttleiki hennar var vestan við Ísland þar sem makríllinn var jafnframt í mestum þéttleika, segir ennfremur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.