Norsku skipin náðu að veiða loðnukvóta sinn í íslensku lögsögunni. Í heild máttu þau veiða 59.474 tonn og skráður afli þeirra er 59.250 tonn, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins (Norges Sildesalgslag).

Norsku skipin hafa landað stórum hluta afla síns til vinnslu hér á landi. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur en miðað við stöðuna á vef Fiskistofu hafa þau landað hér rúmum 23 þúsund tonnum, nær eingöngu til manneldisvinnslu. Norsku skipin hafa þannig landað um 40% af loðnuafla sínum í íslenskum höfnum.

Loðnan af norsku skipunum hefur verið mikil búbót fyrir vinnslur á Austfjörðum og víðar. Mestum afla var landað á Eskifirði, eða um 7.900 tonnum. Neskaupstaður kemur þar á eftir með um 6.500 tonn.

Upplýsingar um sölur á loðnuafla norsku skipanna eru birtar á vef norska síldarsamlagsins. Búið er að skrá sölur á 41.154 tonnum sem landað hefur verið í Noregi, á Íslandi og ef til vill víðar. Heildaraflaverðmætið á því sem skráð hefur verið er 239 milljónir norskra króna (tæpir 3,2 milljarðar ISK). Meðalverðið er 5,8 krónur á kíló  (76,9 ISK).

Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.