Veiðar á makríl ganga ágætlega. Alls höfðu veiðst rúm 56 þúsund tonn af makríl í íslensku lögsögunni, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu nú um miðja vikuna. Samkvæmt því er búið að veiða um 35% af leyfilegum makrílafla.
Aflareynsluskip (uppsjávarskipin) hafa veitt um 35 þúsund tonn af makríl og eiga um 78 þúsund tonn eftir af sínum heimildum. Vinnsluskip (frystitogarar) hafa veitt um 13.600 tonn og eiga rúm 17 þúsund tonn eftir. Skip án vinnslu hafa veitt um 6.500 tonn og eiga eftir um 4 þúsund tonn. Loks hafa handfærabátar veitt um 1.740 tonn og eiga eftir rúm 5 þúsund tonn.
Heildarúthlutun makríls fyrir alla potta er tæp 168 þúsund tonn. Frá dragast millifærslur á kvóta einstakra skipa milli ára og eftir stendur um 160 þúsund tonna heimild.