Um 300.000 tonnum af hliðarafurðum í botnfiskafla í norskri lögsögu er ekki nýttur og endar í sjónum. Þetta kom fram hjá ráðgjafarfyrirtækinu Inaq á ráðstefnu í tengslum við Sjávarútvegssýninguna.
Það sem vegur þyngst í frákastinu eru hausar ásamt lifur og slógi og fiskúrgangur frá erlendum fiskiskipum innan norskrar lögsögu.
Fram kom í máli Erlu Óskar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Codland, að gera megi ráð fyrir því að unnt sé að auka verðmæti 5 kg fisks um 1.100 krónur með fullnýtingu. Þetta gefur til kynna að Norðmenn gætu gert sér verulegan mat úr því hráefni sem nú fer í sjóinn, eða allt að 65,5 milljarða króna.
Árið 2013 voru rétt undir 100.000 tonn af þorsk- og ýsuhausum ekki nýtt, samkvæmt gögnum frá rannsóknarstofnuninni Sintef. Þá var yfir 30.000 tonnum af lifur hent þrátt fyrir mikla eftirspurn og hátt lýsisverð. Talið er að 50.000 tonn af öðru slógi hafi verið fleygt af sjómönnum sem telja að kvótakerfi þröngvi sig til þess að skila eingöngu á land flökum.
Einungis 35%, eða 114.000 tonn af hliðarafurðum botnfiskaflans er nýttur í Noregi. Þetta er sannarlega lágt hlutfall miðað við 90% nýtingu á eldislaxi í Noregi og uppsjávarfiski sem er nýttur til fullnustu.