Þegar samið var um smíði á fjórum skipum fyrir Íslendinga við Cemre skipasmíðastöðina í Tyrklandi, þar af þremur fyrir Samherja og einu fyrir FISK Seafood, gerði Ulstein, hönnunar- og skipasmíðafyrirtækið í Noregi, athugasemd við skrokklagið sem fyrirtækið fullyrti að það hefði einkaleyfi á. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.

Að sögn Bárðar Hafsteinssonar framkvæmdastjóra Skipatækni ehf. sem hannaði íslensku skipin hefur þetta óvenjulega skrokklag verið notað við smíði á birgðaskipum olíuiðnaðarins í Noregi. Ulstein sótti um einkaleyfi fyrir slíku skrokklagi hjá Evrópsku einkaleyfastofunni árið 2005 og fékk það.

Einkaleyfi Ulstein fellt úr gildi

„Við vorum búnir að kanna þetta einkaleyfi og komumst að þeirri niðurstöðu að okkar hönnun bryti ekki í bága við það. Við fórum með málið fyrir Evrópsku einkaleyfisstofuna og niðurstaðan varð sú að einkaleyfi Ulstein var fellt úr gildi á þeirri forsendu að þetta skrokklag væri alls ekki nýtt. Norska fyrirtækið hefur haldið áfram að hnýta í okkur en við teljum okkur vera komna með það sterk gögn í  hendur núna að vafasamt sé að þeir fái einkaleyfi fyrir þessu aftur," segir Bárður.

Sjá viðtal við Bárð í nýjustu Fiskifréttum sem komu út í dag.