„Við höfum hægt verulega á viðskiptum við Úkraínu vegna óvissunnar þar eystra. Það er í sjálfu sér ekki vandamál að selja ef einhver vill taka áhættuna af því að lána innflytjendum. Það þurfa allir að fara mjög varlega,“ segir Teitur Gylfason hjá Iceland Seafood í samtali við Fiskifréttir.
Teitur segir að Úkraína sé næststærsta markaðslandið fyrir íslenskan uppsjávarfisk. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands nam útflutningurinn þangað rúmum 6,9 milljörðum króna í fyrra. Það segir þó ekki alla söguna því mikið af þeim uppsjávarfiski sem fluttur er til Litháen endar í Úkraínu. Miðað við þær forsendur má áætla að heildarsalan til Úkraínu hafi verið um 12 milljarðar króna eða næstum fjórðungur af heildarútflutningnum sem var 51 milljarður. Aðeins Rússland keypti meira en Úkraína af uppsjávarafurðum eða fyrir um 15 milljarða króna.
Sjá nánari umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.