Lögð áhersla um þessar mundir á að togararnir í Síldarvinnslusamstæðunni veiði annað en þorsk. Einkum er áhersla lögð á að veiða ufsa en það hefur sannast sagna gengið erfiðlega, að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á mánudagsmorgun og var Jón Valgeirsson skipstjóri tiltölulega ánægður með veiðiferðina. „Við lögðum upp frá Neskaupstað og byrjuðum að veiða á Gauraslóðinni. Þar var lítið að hafa og þá var strikið tekið í Lónsbugtina. Þar lentum við í góðri veiði. Aflinn var mest þorskur og ufsi og smávegis af karfa og ýsu með. Það sem skipti kannski mestu máli var að fá ufsann því hann reynist okkur býsna erfiður,” sagði Jón.
Gleðilegt að ná einhverjum ufsa
Jóhanna Gísladóttir GK landaði í Grindavík á mánudagsmorgun og greindi Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri svo frá túrnum. „Við lönduðum 55 tonnum og var aflinn mest ufsi og síðan ýsa og þorskur. Við byrjuðum við Hvalbakinn í túrnum en þar var lítið að hafa. Þá var haldið á Landabanka og síðan á Mýragrunn og þar var sama sagan, aflinn var afar takmarkaður. Loks reyndum við fyrir okkur á Öræfagrunni og þar var þolanlegt nudd yfir nóttina en lítið að fá yfir dagtímann. Öll áhersla var lögð á að fá annað en þorsk og það er gleðilegt að hafa náð einhverjum ufsa í þessum túr,” sagði Einar Ólafur.
Vestmannaey VE landaði í Eyjum á þriðjudagsmorgun. Skipið var með fullfermi. Þorskur var um 40% aflans en aflinn var annars ýsa, ufsi, karfi, steinbítur og koli. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri sagði að mikil áhersla væri lögð á að veiða annað en þorsk. „Það var víða farið í þessum túr. Við fórum frá Norðfirði og keyrðum fyrst suður á Urðarhrygg. Þar var ekkert nema þorsk að fá. Þá var haldið á Undirbyrðishrygg í leit að ýsu en þar var róleg veiði. Leiðin lá í Lónsbugtina og þar veiddist vel en alltof mikið af þorski. Farið var út á Papagrunn en þar var ekki ýsan sem við vorum að leita að. Fréttir bárust af ufsaveiði í Lónsdýpinu og við fórum þangað en þá var ufsinn búinn. Við enduðum loks við Kolahrygginn og þar fékkst þokkaleg blanda. Það var semsagt talsvert haft fyrir þessu,” sagði Birgir Þór.
Gullver NS landaði 102 tonnum á Seyðisfirði í gær. Aflinn var mjög blandaður; þorskur, ýsa, ufsi og karfi. Þórhallur Jónsson skipstjóri sagði að að túrinn hefði hafist á Gauraslóðinni en síðan hefði verið veitt í Lónsbugt og í Berufjarðarálnum.
Bergey og Jóhanna Gísladóttir héldu til veiða á ný í gær og Vestmannaey í gærkvöldi. Gullver mun halda til veiða á laugardagsmorgun.