Landhelgisgæslunni barst fyrr í þessari viku beiðni frá Frontex, landamærastofnun EU um að varðskip yrði sent til aðstoðar við landamæragæslu á Miðjarðarhafi. Landhelgisgæslan stefnir að því að verða við beiðninni og er nú hafinn undirbúningur sem miðar að því að varðskipið Týr fari í verkefnið sem mun standa yfir í desembermánuð með möguleika á framlengingu. Greint er frá þessu á vef Landhelgisgæslunnar.

Reiknað er með að varðskipið fari á svæðið suður af Sikiley en þar hefur orðið gríðarleg aukning í fjölda flóttafólks síðustu misseri og mörg hundruð manna farist á leið sinni til Evrópu. Frontex vinnur að því að stórauka viðbúnað á svæðinu og er óskað eftir skipum frá Ítalíu, Eistlandi, Möltu og Portúgal auk Íslands. Því til viðbótar munu minni bátar og flugvélar taka þátt í verkefninu.

Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í verkefnum á vegum Frontex frá árinu 2010, bæði með flugvél og varðskipi en Ísland er aðili að Frontex í gegnum Schengen samstarfið.  Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa á tímabilinu komið að mörgum björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi þar sem mörg þúsund manna hefur verið bjargað og er mikil þörf á að Evrópuþjóðir taki höndum saman við leit, björgun og eftirlit á svæðinu.