Varðskipið Týr er nú í slipp á Akureyri og hefur verið málaður rauður vegna leiguverkefnis sem mun hefjast frá byrjun maí nk. Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf undirrituðu nýverið fimm mánaða samning um leigu á varðskipinu þar sem skipið verður leigt til eftirlits- og björgunarstarfa sem og almennra löggæslu- og þjónustustarfa fyrir sýslumanninn á Svalbarða með heimahöfn í Longerbyen.

Sýslumaðurinn á Svalbarða fer með yfirstjórn allrar stjórnsýslu sem lýtur að aðkomu norska ríkisins á Svalbarða, þar með talið löggæslumál til sjós og lands, leit og björgun og umhverfismál.

Landhelgisgæslan hefur beint og óbeint sinnt verkefnum fyrir sýslumanninn á Svalbarða gegnum árin en mikið samstarf hefur verið milli þyrlusveitar sýslumannsins og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.  Landhelgisgæslan telur afar mikilvægt að efla samstarf leitar- og björgunaraðila á Norður-Atlantshafi og því skapar þessi samningur enn frekari möguleika á að efla samstarf milli Svalbarða og Íslands um öryggismál á Norðurslóðum.

Sjá nánar á vef Landhelgisgæslunnar.