Varðskipið Týr er 40 ára í dag. Þetta sögulega varðskip ber aldurinn vel þrátt fyrir að hafa marga hildina háð í gegnum áratugina. Í tilefni dagsins var að sjálfsögðu slegið upp veislu um borð en sem stendur er varðskipið við björgunar- og eftirlitsstörf í Miðjarðarhafi fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins, Frontex.

Tímamótanna er minnst á vef Landhelgisgæslunnar og þar kemur m.a. fram:

Týr kom mikið við sögu í 200 sjómílna þorskastríðinu og klippti á togvíra fjölda togara, bæði breskra og þýskra.  Alvarlegasti atburðurinn varð þegar breska freigátan Falmouth sigldi tvívegis á Tý og laskaði hann verulega.  Skipið fór nær alveg á hliðina en rétti sig við aftur. Ekkert manntjón varð en litlu mátti muna að tveir skipverjar Týs færu fyrir borð við þessa fólskulegu árás freigátunnar.

Á síðastliðnum 40 árum hefur Týr dregið alls 99 skip til hafnar eða í landvar á Íslandi og tvö erlendis eða alls 101 skip. Síðasta björgun Týs var þegar flutningaskipið EZADEEN var dregið til hafnar á Ítalíu í byrjun janúar s.l. með alls 360 flóttamenn en skipið var stjórnlaust djúpt austur af Ítalíu. Lengsta dráttarverkefni Týs til þessa var í maí-júní 2012 þegar dráttarbáturinn Hebron Sea var dreginn frá Pictou á Nova Scotia í Kanada til Grena í Danmörku eða alls 2881 sjómílur.

Sjá nánar umfjöllun í máli og myndum HÉR