Nýtt og byltingarkennt leysitæki hefur verið þróað til að fæla burt sjófugla.Tækið getur bjargað lífi fugla og kemur í veg fyrir að beita tapist, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Hollenska fyrirtækið SaveWave og norska fyrirtækið Mustad hafa þróað í samstarfi fyrstu fuglafæluna sem notar leysigeisla til reka burt sjófugla. Fuglinn á það til að festast á krókunum við línuveiðar og drukkna þegar hann reynir að næla sér í beitu.
Tækið var prófað á Íslandsmiðum í vetur um borð í Tjaldi SH með góðum árangri. Jónas Jónasson, skipstjóri á Tjaldi SH, segir í samtali við Fiskifréttir að tækið hafi reynst afbragðs vel. Fuglinn forðist skipið eins og heitan eldinn og haldi sig langt, langt í burtu.
Fuglar eru oft aðgangsharðir þegar lína er lögð ef ekkert er að gert. „Ég fylgdist eitt sinn með ritu sem var auðþekkt af dökkum bletti á bringunni. Þessi eini fugl náði 35 beitum af lögninni á um 25 mínútunum. Þegar mest er getur fuglinn tekið 2 til 4 þúsund beitur í lögn. Þetta gæti þýtt allt að 2ja tonna minni afla. Týnd beita er tapaður fiskur,“ segir Jónas.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.