Rækjuveiðar við Snæfellsnes hafa gengið mjög vel síðustu vikurnar. Það sem af er hafa veiðst um 690 tonn af rækju í Kolluálnum samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst um 355 tonn af rækju í Kolluálnum, þannig að aflinn hefur nærri tvöfaldast.
Þetta kemur meðal annars fram í umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum um rækjuveiðar. Mokveiði var hjá sumum bátum í Kolluál og Jökuldýpi í apríl. Aflahæsta skipið,Vestri BA, fékk upp í 20 tonn á sólarhring og meðalafli á sólarhring í apríl var um 8 tonn.
Veiðar á úthafsrækju hafa ekki gengið eins vel. Í byrjun vikunnar, þegar rétt rúmir átta mánuðir eru liðnir af fiskveiðiárinu, var búið að veiða um 3.150 tonn af úthafsrækju, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Á sama tíma í fyrra var aflinn mun meiri, eða rúm 4.800 tonn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.