Fiskafli úr veiðum og eldi í heiminum er næstum helmingi meiri á hvern jarðarbúa nú en var fyrir 50 árum, samkvæmt skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Fiskframboðið hefur vaxið úr 10 kílóum á mann í rúmlega 19 kíló.

Þarna munar mestu um aukið fiskeldi, sérstaklega í Kína. Framboð af fiski úr eldi í heiminum nemur 66 milljónum tonna, þar af er kínsverskur eldisfiskur tveir þriðju af heildinni.

Heimsaflinn úr veiðum og eldi nam samtals 158 milljónum tonna árið 2012. Þar af komu 80 milljónir tonna úr veiðum í sjó. Það er svipað og verið hefur síðustu tíu árin. Stærsta veiðiþjóðin er Kínverjar en afli þeirra nam 14 milljónum tonna.

Áætlað er að 10-12% jarðarbúa hafi lífsviðurværi sitt af fiskveiðum og fiskeldi.