Rannsóknaskipið Árni Friðriksson muni halda vestur á laugardaginn til að hefja þar allt að fimmtán daga leiðangur við loðnumælingar. Á mánudag og þriðjudag leggja síðan uppsjávarskipin Heimaey VE og Polar Ammassak af stað og byrja fyrir Norðausturlandi.

„Þau verða norður og austur af Langanesi, við förum ekki mikið suður fyrir Langanes. Þau munu síðan vinna sig til móts við Árna. Það á að dekka meira og minna allt Norðurlandið,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.

Guðmundur segir að þótt Árna verði siglt vestur nú á laugardag séu veðurhorfur þannig að ekki víst að hægt verði að fara beint út á miðin. „En vonandi geta þeir farið beint í mælingar,“ segir hann.

Engar fregnir úr flotanum

Aðspurður segir Guðmundur engin tíðindi hafa borist frá veiðiskipum um að loðnutorfur séu að sjást í dýptarmælum. Árni Friðriksson hafi dekkað norðvesturhornið fyrir tveimur vikum.

„Það var loðna þarna víða, ungloðna sérstaklega, í torfum þarna uppi við á þessum slóðum á meðan fullorðna loðnan var þarna á afmörkuðu svæði norðar. Það var lítið magn af henni þannig að ef það er eitthvað að sjá þarna að ráði myndum við alltaf álíta það vera viðbót við það sem höfum mælt áður af því að það var svo lítið sem mældist þarna,“ segir Guðmundur.

Það þarf að vera viss

Eins og fram kom í viðtali við Guðmund á vef Fiskifrétta síðastliðinn mánudag er gert ráð fyrir að Árni Friðriksson verði allt að fimmtán daga í þessum leiðangri. „Við metum það sem svo að það sé gott að fara yfir norðvesturhornið núna, gefa því svæði síðan hlé í kannski viku og fara aftur. Þannig að Árni mun í raun endurtaka leitina þar,“ segir Guðmundur.

Þannig mun Árni Friðriksson leita tvisvar fyrir norðvesturlandi og fara í millitíðinni til mælinga til móts við Heimaey og Polar Ammassak fyrir norðan land. „Við þurfum að strekkja þetta yfir tímabilið upp á hvort það gerist eitthvað í millitíðinni, það þarf að vera viss.“

Orðið vonlítið ef ekkert gerist í þessum leiðangri

Nú ætla ég ekki að fullyrða neitt en það verður orðið mjög áliðið þegar þessari leit er lokið,“ svarar Guðmundur spurður hvort þessi leiðangur verði lokaleit að loðnunni þetta tímabilið. „Við skulum aldrei afskrifa þetta alveg en það hlýtur að fara að verða afskaplega vonlítið að eitthvað gerist ef það gerist ekki innan þessa tímaramma.“