Verulega vantar upp á það að dagróðrarbátar hafi nýtt sér til fulls heimildir til línuívilnunar á yfirstandandi fiskveiðiári. Einkum á þetta við um heimildir í þorski.
Dagróðrabátar með línu, sem beitt er í landi, mega í einstökum róðrum landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi, að landa í einstökum róðrum 15% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks þeirra.
Alls er nú búið að veiða um 2.070 tonn af þorski miðað við óslægt af þeim 3.375 tonnum sem tekin voru frá til línuívilnunar á fiskveiðiárinu, samkvæmt tölum sem finna má á vef Fiskistofu. Línuívilnun er skipt í fjögur tímabil. Á fyrsta tímabilinu, frá 1. september 2010 til 30. nóvember 2010 mátti veiða 1.080 tonn af þorski en 769 tonn veiddust. Á öðru tímabili, frá 1. desember 2010 til 28. febrúar 2011 mátti veiða 1.280 tonn en 1.047 tonn voru veidd. Á fyrstu tveimur tímabilum voru ekki nýtt um 544 tonn sem voru til ráðstöfunar. Langt er liðið á þriðja tímabilið, sem stendur yfir frá 1. mars til 31. maí. Um 770 tonn af þorski eru þar til ráðstöfunar en um 252 tonn hafa verið nýtt til þessa. Eftir standa um 518 tonn. Á fjórða tímabilinu, sem er frá 1. júní til loka fiskveiðiársins eru 245 tonn til ráðstöfunar.
Einnig vantar nokkuð upp á að bátar hafi nýtt sér heimildir til línuívilnunar í ýsu og steinbít.