Hæstiréttur hefur kveðið upp tvo dóma í sambærilegum málum sem snerta snæfellsk sjávarútvegsfyrirtæki. Annars vegar Hraðfrystihús Hellissands í Rifi og hins vegar Guðmund Runólfsson hf. í Grundarfirði. Í báðum tilfellum sneri Hæstiréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. janúar 2016 og dæmdi sjávarútvegsfyrirtækjunum í hag. Landsbankinn var dæmdur til að greiða Hraðfrystihúsi Hellissands 1,16 milljarð króna auk vaxta, en í tilfelli Guðmundar Runólfssonar hf. var upphæðin réttur milljarður króna auk vaxta. Landsbankanum var jafnframt gert að greiða málskostnað. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.

Í báðum þessum málum var deilt um hvort Landsbankanum hefði verið heimilt við endurútreikning á lánasamningum til fyrirtækjanna að krefja þau um vexti sem bundnir voru ólögmætri gengistryggingu. Bankanum var óheimilt að reikna vexti á gjalddaga sem gjaldfallið hefðu fyrir endurútreikning lánanna. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að við heildarmat á öllum aðstæðum yrði að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefði á efnahag Hraðfrystihúss Hellissands og Guðmundar Runólfssonar og óhagræði fyrirtækjanna af því að þurfa að standa skil á kröfunum. Var talið að þegar litið væri til stærðar fyrirtækjanna og umsvifa væru áhrif viðbótarkröfunnar svo veruleg að Landsbankinn yrði sjálfur að bera þann vaxtamun sem um var deilt í málinu.

Sjá nánar um málið á vef Skessuhorns.