Norðmenn hyggjast senda tvö skip til tilraunaveiða á loðnu við Jan Mayen, að því er fram kemur í frétt á vef norska síldarsamlagsins. Skipin tvö, Havglans og Endre Dyrøy, voru dregin út úr hópi 28 skipa sem sýndu þessum veiðum áhuga.

Hér er um að ræða loðnu úr íslenska loðnustofninum sem kunnugt er. Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, segir aðspurður í samtali við Fiskifréttir að enginn munur væri gerður á tilraunaveiðum og öðrum loðnuveiðum Norðmanna. Ef norsku skipin veiði loðnu við Jan Mayen muni aflinn að sjálfsögðu dragast frá heildarkvóta Norðmanna.