Tvö skip sóttu um að veiða túnfiskkvóta Íslendinga í ár og fengu honum úthlutað. Um er að ræða 30 tonn af túnfiski og skiptist hann jafnt á milli skipanna. Ekki liggur þó endanlega fyrir hvort af þessum veiðum verði í ár, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.
Skipin sem hér um ræðir eru Jón Gunnlaugs ÁR og Guðrún Guðleifsdóttir ÍS. Útgerðarmaður Jóns Gunnlaugs ÁR segir í samtali við Fiskifréttir að stefnt sé að því að veiða túnfiskinn djúpt suður af landinu samhliða lúðuveiðum. Ef af verður hefjast veiðarnar um miðjan september. Meiri óvissa er hvort Guðrún Guðleifsdóttir ÍS haldi til veiða.
Íslendingar eiga aðild að Atlantshafs túnfiskveiðiráðinu (ICCAT) og fá árlega heimild til að veiða tiltekinn kvóta í Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski. Á ýmsu hefur gengið um þessar veiðar en flest árin hefur kvóti Íslands lítið eða ekkert verið nýttur.