Á vefsíðu Berlingske Tidende í gær er vakin athygli á að í fyrsta sinn síðan Berlingske Business Magasin hóf fyrir 25 árum að birta lista yfir 100 ríkustu Dani séu þar nöfn tveggja útgerðarmann fiskiskipa. Barslund-fjölskyldan á Borgundarhólmi er númer 78 á listanum með 1.100 milljónir d.kr. (jafnvirði 24 milljarða ISK) og Henning Kjeldsen frá Skagen er í 90. sæti  með 950 milljónir d.kr. (21 milljarð ISK).

Frá þessu er skýrt á vef Evrópuvaktarinnar.

Kristian Barslund Jensen forstjóri rekur ásamt tveimur sonum sínum Ocean Prawns í Nexø á Borgundarhólmi. Fyrirtækið heldur úti tveimur rækjutogurum undir kanadískum fána á veiðum undan strönd Kanada. Þá má skjóta því hér inn að hann á einnig helmings hlut í togaranum Reval Viking á móti eistneska fyrirtækinu Reyktal sem Íslendingar tengjast, en skipið veiðir við Grænland undir eistneskum fána.

Frá því í upphafi níunda áratugarins hefur fyrirtækið átt fimm af 17 rækjukvótum við Kanada. Alls mega skip Ocean Prawns veiða 20.000 lestir af rækju. Fyrirtækið vinnur rækjuna og selur til smásala í samvinnu við kanadíska fyrirtækið Clearwater.

Hinn úgerðarmaðurinn á listanum, Henning Kjeldsen á Skagen á Jótlandi, veiðir innan kvótakerfis ESB. Hann heldur úti stórum togurum og nú í haust fær hann nýtt skip frá Western Baltija Shipbuilding í Litháen. Skipið verður næststærsta fiskiskip Danmerkur 86,3 metrar langt og verður gert út á makríl.