Tveir björgunarbátar björgunarsveitanna á Flateyri og Húsavík verða afhentir í vikulok en upphaflega stóð til að afhenda þá í desember á síðasta ári. Skrokkur bátanna er smíðaður af tyrkneskum undirverktökum bátasmiðjunnar Rafnars og eftir teikningu Rafnars. Undirverktaki í Tyrklandi átti einnig að sjá um frágang og ísetningu búnaðar. Mikil vanhöld voru á þeirri vinnu og þurfti Rafnar nánast að endurhanna allt sem undirverktakinn hafði gert.
Björn Jóhann Gunnarsson, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörg, segir að starfsmenn Rafnars hafi lagt vinnu í að nánast endursmíða bátana í allt sumar. Bátarnir komu til Reykjavíkur í lok maí og kom þá strax í ljós í hvaða ástandi þeir voru. Hefur í allt sumar verið unnið að endurbótum á rafkerfi þeirra og lögnum og hluta yfirbyggingar. Nánast hafi þurft að endursmíða bátana. Nú er þeirri vinnu lokið og verður báturinn sem fer til Flateyrar afhentur næstkomandi föstudag og Húsvíkingar fá sinn bát á laugardag.
„Það fellur enginn kostnaður á björgunarsveitirnar. Landsbjörg er með smíðasamning við Rafnar um fyrirfram ákveðin verð og enginn kostnaður fellur á okkur. Kostnaðurinn fellur á Rafnar sem á síðan endurkröfu á tyrkneska undirverktakann,“ segir Björn Jóhann.
Hann segir að eftir þær betrumbætur sem Rafnar hefur lagt í bátana séu allir fullvissir um að þetta verði góðir bátar. Þeir séu núna orðnir eins og þeir áttu að vera upphaflega og eiginlega betri.
Þetta verða ekki fyrstu björgunarbátarnir þessarar gerðar sem hingað koma. Áður hafði Rafnar hannað og smíðað bát fyrir Landhelgisgæsluna sem var afhentur árið 2013, Hjálparsveit skáta í Kópavogi 2015, Björgunarsveitina Ársæl í Reykjavík 2020 og Björgunarsveitina Geisla í Fáskrúðsfirði seint á síðasta ári. Bátarnir hafa reynst mjög vel. Kaupverð hvers báts er í kringum 100 milljónir króna.