Ráðuneytið sendi í síðustu viku frá sér tölfræði um náðanir vegna fyrirspurna frá fjölmiðlum. Alls bárust 489 umsóknir um náðanir árin 1997 til 2017. Fallist var á náðun í 79 tilvikum en 369 umsóknum var hafnað og 41 umsókn vísað frá.
Flestar náðanir hafa verið veittar vegna skattalagabrota eða umferðarlagabrota, en í tveimur tilvikum var náðað vegna fiskveiðistjórnunarlagabrots.
Engar frekari skýringar koma fram í yfirlitinu á því hvaða brot þar er um að ræða eða hvenær þau voru framin.
Helstu ástæður þess að náðun er veitt eru sagðar alvarlegt líkamlegt eða andlegt heilsufar náðarbeiðanda, erfið félagsleg staða eða erfiðar félagslegar aðstæður náðarbeiðanda, eða alvarlegt líkamlegt heilsufar ungs afkomanda náðarbeiðanda.
Í langflestum tilvikum hefur náðunin verið skilorðsbundin til nokkurra ára, frá einu ári upp í fimm ár, en í þremur málum hefur náðun verið veitt án skilorðs.