Norska útgerðin Ervik Havfiske hefur gert samning við Tersan skipasmíðastöðina í Tyrklandi um smíði á tveimur línubátum af fullkomnustu gerð sem verða gerðir út til tannfiskveiða í Suðurhöfum. Bátarnir verða 54 metra langir og 13 metra breiðir og munu heita Argos Georgia og Nordic Prince. Um borð verður rými fyrir 28 menn. Skipin verða afhent á árinu 2018. Verð fyrir bæði skipin er samtals fimm milljarðar íslenskra króna, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi.
Í blaðinu segir ennfremur að Ervik Havfiske hafi nú í júní gert samning við rússneska skipasmíðastöð utan við St. Pétursborg um kaup á nýjum 48 metra línubáti sem verið hefur í smíðum í stöðinni fyrir annan aðila sem hætti við kaupin. Þessi bátur, sem sagður er kosta liðlega tvo milljarða ISK, kemur í stað bátsins Keltic sem seldur verður.
Ervik Havfiske gerir marga báta, m.a. línubátinn Fröyanes sem Tersan í Tyrklandi smíðaði fyrir nokkrum árum. Hann er sagður vera stærsti línubátur í heimi og fullvinnur afla sinn um borð, allt niður í niðursuðu á hrognum.