„Það hefur verið góður gangur í veiðunum alla síðustu viku og við kvörtum ekki,” segir Einar Pétur Eiríksson, skipstjóri á Sóleyju Sigurjóns GK, togskipi Nesfisks í Garði sem er nú á fisktrolli úti fyrir Austurlandi. Auk 120 tonna afla sem að uppistöðu var þorskur komu þeir til Siglufjarðar með eitt stykki enskt tundurdufl.
![Tundurduflið, svipað að stærð og hálf olíutunna, var vel skorðað á dekkinu og bleytt í því.](http://vb.overcastcdn.com/images/119933.width-800.jpg)
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Heimahöfn varðskipsins Freyju er Siglufjörður og liðsmenn sprengjusveitar Gæslunnar fóru til móts við Sóleyju Sigurjóns þegar hún kom inn í fjörðinn og tóku við duflinu til eyðingar.
„Við fengum duflið í pokann á Litla-Grunni. Þetta er ekki stórt stykki, kannski eins og hálf olíutunna. Manni stendur ekkert á sama en við skorðuðum þetta vel af og héldum duflinu blautu. Gæslumenn komu svo á móti okkur á léttabát þegar við komum inn fjörðinn, komu um borð og fluttu duflið á réttan hátt úr skipinu,“ segir Einar.
![Einar Pétur Eiríksson, skipstjóri á Sóleyju Sigurjóns GK.](http://vb.overcastcdn.com/images/119932.width-800.jpg)
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þegar allt er annars með eðlilegum hætti landar Sóley Sigurjóns fiski á Siglufirði og svo er siglt strax aftur að löndun lokinni austur til veiða. Skipið er gert út á rækjuveiðar á sumrin og landar þá líka á Siglufirði. Þaðan er rækjunni ekið til Hvammstanga þar sem Nesfiskur rekur rækjuvinnsluna Meleyri. Frá því á síðasta sjómanndag og út september veiddu þeir 360 tonn af rækju sem er umtalsvert minna en í fyrra enda enda var skipið mikið frá veiðum vegna slipptöku þegar skipt var um kælikerfi.
„Þegar við erum á fiskitrollinu löndum við reyndar yfirleitt þar sem styst er að fara. Bolfisknum er öllum trukkað suður þar sem hann fer í vinnslu hjá Nesfiski,” segir Einar.
Mokfiskað
Sóley Sigurjóns landaði á þriðjudag á Siglufirði 120 tonnum og var aflinn nánast hreinn þorskur. Skipið var rétt rúma tvo sólarhringa á veiðum svo segja má að menn hafi mokfiskað.
„Við höfum fengið tvo hörkutúra núna hérna á Litla-Grunni en það er eitthvað rólegra í augnablikinu og við erum að reyna að staðsetja fiskinn. Þorskurinn er hérna fyrir utan kjamsandi í síldinni og leggst síðan á botninn hérna, stútfullur af æti og líður vel þar til hann kemur í pokann hjá okkur. Meðalþyngdin er um fjögur kíló.”
Fyrsta löndun á fiskitrolli var 5. október. Aflinn er farinn að nálgast 500 tonn þótt fyrstu túrarnir hafi verið hálf lélegir. Tvo túra í röð núna hefur skipið komið með fullfermi.